Matur

Íslensk rjómaterta

Tags: ,

-April 10, 2020

Texti og mynd: Sigríður Björk Bragadóttir (Sirrý í Salt Eldhúsi)

Ekki var úr endalausu hráefni að spila til að gera baksturinn fjölbreyttan hér áður fyrr. Jarðaber, framandi ávextir og allar hnetu og súkkulaði- og sælgætistegundirnar sem eru í boði núna voru ekki til í verslunum og kökur oft skreyttar á mjög látlausan hátt með því sem var til í það skiptið.

Það vantaði þó ekki útsjónasemina í bakstrinum, terturnar voru oft í mörgum lögum ( 3-6 botnar), fínir smjör eða eggjabotnar, og eggjakrem eða rjómi á milli. Þurrkaðir ávextir og ristaðar möndlur voru mikið notaðar og alls konar bragðdropar til að bragðbæta með.

Eldavélin með bakarofni kom til sögunnar fyrsta áratug tuttugustu aldar og má segja að hún hafi breytt öllu hjá húsmæðrum á þeim tíma. Aðgengi að hráefni varð betra og matreiðslubækur fóru að sjást með úrval af girnilegum uppskriftum. Nú fóru íslenskar konur að baka fyrir alvöru, úrvalið jókst og auðveldara var að baka smákökurnar sem áður voru bakaðar í kolaofni.

Sirrý í Salt eldhúsi
Mynd/salteldhus.is

Svamptertubotnar með rjóma og ávöxtum úr dós, kallaðir kokteilávextir, þóttu hið mesta lostæti. Þessi kaka var sérlega vinsæl á stríðsárunum en uppskriftin kom úr bækling sem fylgdi Royal lyftidufti. Íslenska rjómatertan varð til og var í þá daga stundum kölluð puntuterta eða skreytt terta. Síðar þegar úrval af hráefni jókst enn meira varð mikið tertufargan á íslenskum heimilum og þótti mjög fínt að bjóða upp á kaffi og tertur sem oft voru kallaðar stríðstertur eða hnallþórur.

Á mínum æskuárum fékk ég oft rjómatertu hjá ömmu. Ég veit fátt betra en góða köku og þessi fallega kaka var mitt uppáhald. Hún setti oft berjamauk á milli botnanna svo og makrónukökur og rifið súkkulaði. Síðan var hún listilega skreytt, rjómanum sprautað með rjómasprautu upp með hliðunum, ananassneiðar látnar mynda blómamynstur ofan á og eldrauð kirsuber eða sulta á völdum stöðum. Vá! hvað manni fannst þetta flott. Yngri fjölskyldumeðlimir rifust ósjaldan um að fá sneiðina sem á var mest af rauðum kokteilberjum. Í minningunni voru þau ekki endilega svo góð en það sem gerði þau eftirsóknarverð var aðallega það að þau voru svo fá í hverri dós. Hér er mín útgáfa af þessari þjóðlegu tertu, hún má ekki gleymast.

Íslensk rjómaterta með sykruðum ávöxtum

fyrir 10-12

4 egg

180 g sykur

70 g kartöflumjöl

70 g hveiti

1 tsk. lyftiduft

1 tsk. vanilludropar

60 g smjör brætt og kælt

Hitið ofninn í 200°C. Þeytið saman egg og sykur þar til blandan verður ljós og létt. Besta útkoman verður ef eggin eru ekki köld og eggjamassinn er þeyttur saman í 5-10 mín. Sigtið kartöflumjöl, hveiti og lyftiduft út í og blandið varlega saman við með sleikju. Bætið vanilludropum og smjöri saman við. Það er ekki nauðsynlegt að hafa smjör í kökubotnunum en það gefur kökunni aukna mýkt. Smyrjið eða setjið bökunarpappír í botninn á 2 smelluformum, 22 cm í þvermál. Bakið botnana í 18-20 mín. Kökuna má líka baka í 3×20 cm formum og baka aðeins styttra eða 15-18 mín. Kælið kökurnar stutta stund og takið síðan úr formunum.

Fylling og skraut:

½ – ¾  l rjómi

1 stór dós kokteilávextir (825 g) eða aðrir ávextir í dós

Þeytið rjóma. Sigtið safa frá ávöxtum og geymið hann. Leggið annan botninn á tertudisk og vætið vel í honum með safanum. Smyrjið svolitlu af rjómanum ofan á og dreifið 1/3 af ávöxtunum yfir. Leggið hinn kökubotninn ofan á, vætið í honum með ávaxtasafanum og þekið síðan alla kökuna með rjóma, ofan á og með hliðum. Skreytið með kokteilávöxtum eftir smekk.