Fólk, Velferð

Tryggjum réttindi allra barna

Tags: ,

-April 13, 2020

„Það gerðist eitthvað innra með mér, það kviknaði einhver neisti, þegar ég frétti að starfið væri að losna. Ég er með bakgrunn sem sérfræðingur í alþjóðlegum öryggismálum og er fyrrum starfsmaður Sameinuðu þjóðanna. Mín faglega þekking og ástríða liggur í alþjóða- og mannúðarmálum. Sá starfsvettvangur kallaði á mig og þegar ég sá þetta tækifæri opnast hjá UNICEF þá gat ég ekki hjá líða að sækja um,” segir Birna Þórarinsdóttir, nýráðinn framkvæmdastjóri UNICEF – Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á Íslandi –  og hefur hún störf í byrjun maí.

Hún segir samtök á borð við UNICEF skipta gríðarlegu máli á heimsvísu og það sé eftirsóknarvert að taka þátt í starfi þeirra. „Við lifum því miður í heimi misskiptingar gæða og réttinda. Á meðan svo er þá skiptir UNICEF máli til að tryggja réttindi allra barna heimsins; að tryggja að þau njóti menntunar og heilsugæslu, lífs án ofbeldis og hafi tækifæri til að láta rödd sína heyrast í málum sem þau varða.”

Birna hefur ekki farið varhluta af því undarlega ástandi sem ríkt hefur í samfélaginu að undanförnu vegna COVID-19. „Síðustu vikur hafa verið skrítnar, eins og eflaust hjá öllum. Við erum þó svo heppin að vera við góða heilsu og við hjónin höfum notið aukinna samvista við börnin. Ég held að ég hafi aldrei spilað svona mikið á ævinni,” segir Birna. 

Verðugur málstaður

Hún er afar spennt fyrir því að hefja störf hjá UNICEF. „Ég hlakka mikið til þess að kynnast þeim hópi af snillingum sem starfar hjá UNICEF og læra af þeim hvernig staðið er undir jafn flottu starfi og raun ber vitni. Fyrst og fremst er ég þó spennt fyrir því að vinna í þágu barna heimsins. Það er varla hægt að hugsa sér verðugri málstað.”

Birna er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, meistaragráðu í alþjóðlegum öryggismálum frá Georgetown University og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Á árum áður stýrði hún starfsemi landsnefndar UNIFEM (nú UNWOMEN) á Íslandi og verkefnaskrifstofu samtakanna í Serbíu og Svartfjallalandi. Hún hefur kennt og veitt ráðgjöf um alþjóðamál, sinnt atvinnulífstengslum hjá Háskólanum í Reykjavík og rak upplýsingaskrifstofu Evrópusambandsins, Evrópustofu, í þrjú ár. Frá árinu 2016 hefur hún síðan starfað sem framkvæmdastjóri stjórnmálaflokksins Viðreisnar.

Krefjandi áskoranir vegna COVID-19

Stærsta áskorunin hjá UNICEF á næstunni er sú sama og öll heimsbyggðin stendur frammi fyrir: COVID-19. „Faraldurinn á sér margar hliðar og ekki allar augljósar okkur heima á Íslandi. Þannig er til dæmis alls ekki gefið að hafa aðgang að vatni og sápu á mörgum starfssvæðum UNICEF, s.s. í flóttamannabúðum, þannig að grundvallarvarnir gegn veirunni eru ekki til staðar. UNICEF hefur því unnið að undirbúningi og viðbragði við COVID-19 um allan heim um margra vikna skeið. Þá eru ótalin óbein áhrif faraldursins á börn og fjölskyldur, svo sem skólalokanir, álag á heilbrigðisþjónustu og efnahagslega niðursveiflu. Loks þarf að vernda viðkvæma hópa, til dæmis flóttafólk og hælisleitendur, fyrir fordómum og mismunun sem blossað geta upp í ástandi eins og því sem nú er. Það er því í mörg horn að líta – og þá er ég ekki byrjuð að tala um óteljandi verkefni UNICEF í venjulegu árferði til að tryggja börnum heimsins grundvallarréttindi og tækifæri til að vera börn. Allt kostar þetta pening og því er heimsforeldraverkefni og önnur fjáröflun UNICEF á Íslandi svo gríðarlega mikilvæg,” segir Birna.

Á vef UNICEF á Íslandi má kynna sér ýmsar leiðir til að styrkja starfið og styðja börn um allan heim.