Fólk

Sprittgelið gerði kraftaverk

Tags: , ,

-April 18, 2020

Átti 12 brúsa af handspritti heima áður en COVID-19 byrjaði að greinast

„Sumir segja að ég sé alveg sprittóð. Ég skil hins vegar ekki af hverju fólki finnst þetta vera svona mikil bilun hjá mér,” segir Lára Ómarsdóttir fréttamaður hlæjandi. Vinir Láru og vinnufélagar hafa ekki farið varhluta af mikilli sprittnotkun hennar í gegn um árin, og eftir gott bað veit hún ekkert betra en að setja spritt á andlitið, hálsinn og bringuna. Síðan finnst henni ómissandi að anda að sér frískandi sprittlyktinni þegar hún er búin að setja spritt í lófana. 

Lára segir suma hafa gera góðlátlegt grín að henni út af þessari miklu sprittnotkun – en það gerir enginn grín lengur. „Eftir að allir fóru að spritta sig út af COVID-19 fannst mér bara frábært að vera ekki lengur sú eina með sprittbrúsa um allt,” segir hún. 

Handþvottur var óvinurinn

Upphaf sprittnotkunar Láru má rekja til þess þegar svínaflensan geisaði árið 2009. Þá voru gefnar út svipaðar leiðbeiningar og nú vegna COVID-19, að fólk skyldi huga vel að handþvotti og nota spritt. Upp á RÚV, þar sem Lára var að vinna, voru keyptir fjölda sprittbrúsa – bæði vatnsþynnt spritt og svo gelspritt – og tók hún fljótt ástfólstri við gelsprittið. 

„Frá því ég man eftir mér hef ég verið með slæma húð og mikið exem. Ég spring inní lófunum og á handabökum, og handþvottur hefur verið minn versti óvinur ef svo má segja. Ég er viðkvæm fyrir kulda og fæ þurrkubletti um allt. Þegar ég var unglingur var mér sagt að ég mætti ekki þvo mér upp úr heitu vatni og reyna að takmarka handþvott. Ég hef hins vegar alltaf lagt mikið upp úr því að vera með hrenar hendur og þoli illa að vera skítug. Þegar svínaflensan geisaði hlýddi ég bara opinberum fyrirmælum, var alltaf að spritta mig en fannst gelið vera betra þannig að ég notaði það. Eftir má tíma gerðist hið ótrúlega, ég fór að verða miklu betri í húðinni. Það voru greinilega einhver mýkjandi efni í gelinu sem gerðu kraftaverk fyrir hendurnar á mér. Mér fannst þetta stórmerkilegt því ég var búin að glíma við þurrkubletti allt mitt líf, búin að prófa öll heimsins krem, líka fínu og dýru merkin, og búið að láta mig á sterakrem en ekkert virkaði. Síðan var það bara spritt sem gerði kraftaverk,” segir hún.

Engin krem – bara sprittgel

En þó svínaflensan væri í rénun hélt Lára áfram að spritta sig og fór í alls konar tilraunastarfsemi. „Ég hafði verið með þurrkubletti á hálsinum og prófaði að nota spritt á hálsinn á mér. Síðan fór ég að nota spritt á herðarnar og loks á andlitið. Það hefur í nokkur ár verið fastur liður að þegar ég kem úr baði þá spritta ég allt andlitið, líka augnlokin,” segir hún og uppsker andköf frá mér. Hún er greinilega vön slíkum viðbrögðum og segir að sig svíði ekkert.  „Eftir bað set ég líka sprittgelið á bringuna og undir brjóstin. Ég er líka farin að nota þetta á iljarnar og ef mér dettur í hug að raka fótleggina á sumrin set ég þetta á mig strax á eftir þannig að þetta virkar nánast eins og rakspíri.” Hún er lítið fyrir að nota hefðbundnar snyrtivörur, notar engin krem eða neitt slíkt – bara sprittgelið. 

Rauðsprittið kom næst

Það hefur í raun verið gósentíð fyrir Láru eftir að COVID-19 fór að greinast því það er komið svo mikið úrval í verslanir af spritti og geli. Í mestu uppáhaldi hjá henni er sprittgel með vörunúmer 715 en það kaupir hún ekki í hefðbundnum verslunum heldur í heildsölu enda stórnotandi. „Fólk skilur aldrei hvað ég er að meina þegar ég segi því að kaupa spritt með vörunúmer 715. Ég á alltaf nóg af því heima og held hreinlega að það sé búið að seljast upp.” Og til marks um hversu vel hún passar upp á að eiga alltaf til nægar birgðir af spritti þá átti hún heima tólf sprittbrúsa áður en COVID-19. „Ég ætla sko ekki að verða uppiskroppa,” segir hún. 

Hrifining hennar á spritti hefur þróast nokkuð í gegn um árin og nokkuð er síðan hún tók ástfóstri við rauðspritt. „Já, ég varð ástfangin af rauðspritti. Ég nota það til að þrífa allt; eldhúsborðin, gólfið, ofninn, baðkari og klósettið. Rauðspritta er auðvitað svakalega sterkt og venjulega hef ég blandað það 50/50 en eftir að COVID-19 kom hef ég blandað það 70/30 með vatni. Það er hins vegar einn galli við rauðspritt; það getur tekið af málningu,” segir hún og skellir upp úr. „Ég var að þrífa píanóið heima og lenti í því að lakkið fór af. Ég hugsaði þá með mér að þetta hefði kannski verið fullsterkt blandað.” Alla jafna á hún um 8 lítra lager heima af rauðspritti. Það þarf að passa upp á að eiga nóg af þessum nauðsynjavörum.