Óflokkað

Um okkur

-April 14, 2020

Hæ. Erla Hlynsdóttir hér. Ég var að opna nýjan vef – alltgott.is. Eins og nafnið gefur til kynna þá verður hér fjallað um allt gott. Ég var orðin verkefnalaus í miðjum heimsfaraldri og langaði að gera eitthvað skemmtilegt, bæði til að halda sjálfri mér virkri en vonandi líka til að gleðja aðra.  Já, þetta er svona það sem ég hef verið að dunda mér við að undanförnu.

Hugmyndin að vefnum kom eftir að COVID-19 fór að greinast á Íslandi. Margir upplifa kvíða og finnst erfitt að fylgjast með fréttum á hefðbundnum fréttamiðlum þar sem flest er um hvers kyns hörmungar, og COVID-19 í brennidepli með tilheyrandi dauðsföllum víða um heim, efnahagskrísu og atvinnuleysi. 

Á Alltgott.is verður allskonar skemmtilegt. Það verður sagt frá ýmsu sem almennir borgarar eru að gera til að létta sér og öðrum lífið á tímum COVID-19. Við viljum endilega fá ábendingar um slíkt. Það verða fréttir af björgunaraðgerðum stjórnvalda, ráð til að gera vinnuna skilvirkari og ýmsar leiðir til að halda geðheilsunni í sóttkví. Við ætlum að birta uppskriftir, fjalla um afþreyingu fyrir börn og tala við fullt af venjulegu fólki. Þá er ég líka mjög áhugasöm um ókeypis þjónustu sem fyrirtæki og einstaklingar veita nú um stundir, sem og ókeypis viðburði sem eru í boði.

Ég þigg gjarnan ábendingar um spennandi efni á allgott@alltgott.is 

Enn eru nokkur tæknileg atriði sem á eftir að laga á síðunni en það kemst vonandi allt í lag sem fyrst. Þetta er allt gert í sjálfboðavinnu þannig að vinsamlegast sýnið þolinmæði. Ég var hins vegar svo óþolinmóð að ég vildi bara opna síðuna strax 🙂

Allt efni á síðunni er unnið í sjálfboðavinnu en við tökum við frjálsum framlögum í gegn um Aur-appið í númer 6987887.

Njótið.

Erla Hlynsdóttir
Ritstjóri og eigandi