Þar sem öll bókasöfn eru lokuð ákvað Ólafur Páll Jónsson að koma til móts við börn og fullorðna sem eru orðin uppiskroppa með lesefni heima og gefa fólki kost á að hlaða niður ókeypis útgáfu af barnabók sem hann skrifaði fyrir nokkrum árum: Fjársjóðsleit í Granada.
Ólafur Páll er prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands og veturinn 2011 til 2012 fékk hann rannsóknarleyfi við skólann:
Við fjölskyldan fórum til Spánar, meðal annars til að læra spænsku, en við kunnum ekki stakt orð í því máli þegar við fórum út. Og reyndar höfðum við ekki verið mikið á Spáni yfirleitt, einu sinni í Barcelona og einu sinni á Tenerife. Við fórum til Granada, þar sem ég fékk aðstöðu í heimspekideild háskólans.
Við þekktum ekki borgina en vorum svo heppin að fá húsnæði í gamla márahverfinu í borginni, Albayzín. Þetta var allt heilmikið ævintýri. Við vorum með tvær stelpur sem voru 9 og 11 ára. Þær fóru í hverfisskólann en fljótlega komi á daginn að kennsluhættir þar voru með talsvert öðru móti en þær voru vanar frá Íslandi – okkur fannst skólinn skelfilega gamaldags. Um þetta ræddum við fjölskyldan löngum stundum yfir kvöldmatnum á hverju kvöldi. Og það var hreint ekkert gleðiefni að fara að sofa og hugsa til þess að næsta morgun þyrfti að fara í þennan skóla og sitja undir óskiljanlegu mali kennaranna. Reyndar var á þessu undantekning, en þrjá morgna í viku fengu þær sérstaka spænskukennslu frá dásamlegum kennara. Hún eiginlega bjargaði lífi þeirra. En í heildina var skólinn ansi leiðinlegur.
Til að gefa þeim tækifæri til að hugsa um allt sem var að gerast með aðeins öðrum hætti, fá smá fjarlægð á tilveruna sem var stundum dálítið yfirþyrmandi og til að skapa notalega stund fyrir svefninn, þá byrjaði ég að skrifa sögu um stelpu sem var á þeirra aldri og í svipaðri stöðu. Ég byrjaði bara á nokkrum köflum en á hverjum degi spurðu þær: „Er ekki kafli í kvöld?“ þannig að ég mátti hafa mig allan við að skrifa. Vandinn var að ég hafði ekki hugmynd um hvernig þessi saga myndi þróast og vissi alls ekki hvort þessi fjársjóðsleit myndi bera einhvern árangur. Mér fannst þetta því nokkuð spennandi sjálfum og hlakkaði til að sjá hvernig sagan myndi enda.
Nokkru eftir að við komum heim fór ég að skoða þessa sögu aftur og bað nokkra kunningja mína um að lesa hana yfir fyrir mig og segja mér sitt álit. Þá fyrst kom upp hugmyndin um að gefa söguna út. Bókin kom svo út 2014 og tveim árum síðar var hún gefin út á spænsku og er núna fáanleg í bókabúðum í Granada.
Hér er hægt að hlaða bókinni niður og lesa í tölvu síma eða á lesbretti: Fjársjóðsleit í Granada í rafrænni útgáfu.