Fólk

Það er kúl að plokka

Tags: ,

-April 15, 2020

Lóan er löngu komin til landsins en síðustu ár hefur það einnig fylgt vorkomunni að Atli Svavarsson fari út að plokka. Atli og pabbi hans, Svavar Hávarðsson, fóru í fyrsta plokk vorsins þann 8. apríl sem raunar var fimm vikum seinna en í fyrra.  Sævarhöfðatúnið varð fyrir valinu eins og fyrri ár. „Ég og pabbi byrjuðum að plokka 2017 og þá fórum við á Laugarnestangann sem er rétt hjá okkur. Við förum stundum niður á tanga með súkkulaðiköku og mjólk, og tókum eftir því hvað var mikið af rusli. Þess vegna byrjuðum við þar í upphafi. Síðan höfum við alltaf plokkað Sævarhöfðatúnið við hliðina á Sorpu,“ segir Atli. 

Fyrsta árið var túnið alveg grafið í rusli, og það tók þá feðga þrjá daga að klára það í fyrsta skipti. „Þá plokkuðum við 17 stóra poka en núna var miklu minna rusl. Það var eiginlega svolítið erfitt að fylla bara tvo poka. En það var rosalega næs að sjá alla fuglana og hreinsa fyrir þá – við sáum tjald, gæsir og marga sjófugla. Við heyrðum líka í hrossagauk, en pabbi elskar þá. Hann segir að þeir hafi flottasta hljóðið í náttúrunni. Hann langar alltaf að fara veiða þegar hann heyrir í þeim. Það er eins og hann vilji vera hrossagaukur, hann elskar þá svo mikið,” segir hann.  Atli var mjög ánægður með að komast loks aftur út að plokka. „Ég var glaður að getað byrjað að plokka aftur af því að ég er að hjálpa fuglunum og fiskunum, og bara öllum dýrum, til að búa í hreinu umhverfi. Líka okkur fólkinu til að hafa hreint í kringum okkur.”

Plokkfeðgarnir Svavar Hávarðsson og Atli Svavarsson

Jafn einfalt og að taka til í stofunni

Atli er nýorðinn 13 ára en hann fékk hugmyndina að plokkinu þegar hann var tíu ára og var að horfa á Ævar vísindamann í sjónvarpinu. Ævar talaði um að allt væri hægt ef hver og einn legði sitt af mörkum, Atli spurði pabba sinn þá hvort þeir gætu farið út að tína rusl og þar með voru þeir byrjaðir. Atli ákvað að kalla verkefnið Save the world og grunaði hann ekki hversu mikið það myndi vinda upp á sig.  Fyrir tveimur árum hlaut Atli samfélagsverðlaun Fréttablaðsins í flokknum „Frá kynslóð til kynslóðar,” þeir feðgar voru heiðraðir af Reykjavíkurborgar fyrir framlag sitt til hreinsunar í borginni, og í fyrra var vitnað í Atla í skýrslu íslenskra stjórnvalda sem Sameinuðu þjóðirnar birtu á vef sínum um innleiðingu á heimsmarkmiðum. Atli segir að skemmtilegast af öllu hafi verið þegar hann fékk að fara í þyrlu Landhelgisgæslunnar með flöskuskeytið sitt, og má nánar lesa um hér á vef Verkís.

Til að fylgjast nánar með þessu ævintýri frá upphafi til enda má einfaldlega gúggla „Atli flöskuskeyti.” 

Úr skýrslu íslenskra stjórnvalda sem Sameinuðu þjóðirnar birtu á vef sínum um innleiðingu á heimsmarkmiðum.

Atli er mjög undrandi á því að það sé enn fullt af rusli um allt þrátt fyrir hversu mikið hefur verið rætt um umhverfisvernd. „Mér finnst það vera algjörlega ömurlegt og hræðilegt. Mér finnst þetta líka skrítið af því að það er svo auðvelt að breyta þessu. Ef allir gera sitt þá er hægt að hafa hreint í kringum sig – bara eins og heima. Ef allir geta tekið til í stofunni og herberginu sínu þá ætti að vera jafn auðvelt að hafa snyrtilegt í umhverfinu. Allir myndu græða á því og öllum myndi líða betur,” segir hann. 

Fundu stolna fartölvu

Eftir að hafa plokkað svona lengi og mikið hafa Atli og pabbi hans rekist á allskonar rusl. „Sumt er skrítið og jafnvel hættulegt. Ég hef fundið margar sprautunálar en ég kalla alltaf á pabba þegar ég sé svoleiðis. Hann er nefnilega búinn að banna mér að snerta hættulega hluti í plokkinu og segir að foreldrar eigi að segja krökkunum sínum að fara varlega og láta bara vita ef þau sjá eitthvað svona. En svo höfum við líka fundið skemmtilega hluti. Pabbi fann um daginn bakpoka og í honum var fartölva sem hafði verið stolið tveimur dögum áður. Hún var í fínu lagi og strákurinn sem átti hana var mjög glaður. Í tölvunni voru allar myndirnar hans og alls konar músík sem hann er búinn að semja. En svo er ömurlegt að sumt fólk hendir ruslinu sínu beint í náttúruna. Marga, marga poka af fötum, umbúðum og úldnum mat sem fuglarnir dreifa út um allt. Það köllum við pabbi dömp og við finnum svoleiðis á hverju ári. Núna fundum við svoleiðis í miðjum Laugardalnum. Einu sinni fundum við ótrúlega mikið af lauk – þrjá poka. Ég hélt að þetta væri lyktin af pabba. Honum fannst það ekkert rosalega fyndið.”

Góð ráð fyrir byrjendur í plokki

Plokkið skiptir Atla miklu máli og leggur hann áherslu á að umhverfið eigi að vera hreint.  „Við eigum bara eina jörð og við verðum að fara vel með hana. Ísland á að vera hreint – ekki skítugt. Það eru allir sammála um það og þess vegna er skrítið að allir vilji ekki fara og plokka þar sem þarf.”

Einstaka sinnum koma vinir Atla út að plokka með þeim feðgum en hann veit ekki um neina í skólafélaga sem plokka. „Þeim finnst það kannski ekki kúl – en það er kúl að plokka. Þeir kalla mig stundum ruslakallinn en það er allt í gríni,” segir Atli. Hann lumar líka á nokkrum góðum ráðum fyrir þá sem hafa aldrei plokkað en langar til að byrja.  „Bara að fara af stað. Nota poka sem ekki eru úr vondu plasti heldur umhverfisvænum efnum. Nota góða hanska svo maður skeri sig ekki eða stingi sig á nálum. Ef krakkar eru að fara að plokka að þá að segja þeim að snerta ekki hættulega hluti, heldur segja bara foreldrum sínum frá því. Svo er skylda að verðlauna sig þegar maður er búinn að plokka – það er t.d. gott að fá sér súkkulaðiköku og mjólk. Eða ís. Eða bæði. Svo geta krakkar líka fengið að ráða hvað er í matinn ef þau eru dugleg. Það er næs.”

Pabbi Atla er virkur í Facebookhópnum Plokk á Íslandi og þar geta áhugasamir bæði fylgst með afrekum þeirra feðga og deilt sjálfir sögum af plokki.

Allt í rusli!
Ekki lengur!