Kristín Tómasdóttir

Velferð

Hollráð fyrir fjölskyldur í sóttkví

Tags: , ,

-April 8, 2020

Kristín Tómasdóttir, verðandi fjölskyldumeðferðarfræðingur, hóf störf hjá Sálfræðingum Höfðabakka undir heldur óvenjulegum kringumstæðum – nefnilega í sóttkví. Hún hafði verið í skíðaferð með fjölskyldunni í austurrísku Ölpunum í byrjun mars og eftir heimkomuna fór öll fjölskyldan beint í sóttkví. Kristín lét þó ekki deigan síga heldur bauð upp á pararáðgjöf á netinu, auk þess sem hún skrifaði grein um hvernig sé best að verja tímanum í sóttkví á uppbygginlegan hátt en greinin var „byggð á reynslu í bland við fagþekkingu.” Það vakti nokkra athygli á Facebook þegar Kristín auglýsti úr sóttkvínni eftir líkamsræktartækjum til láns í tvær vikur „…róðravél, trainer eða eitthvað sem brennir caloríum” sem kom þó kannski ekki á óvart því Kristín er forfallinn crossfit-aðdáandi. 

Meðal ráða sem hún deildi til fólks í sóttkví var einmitt að huga að hreyfingunni.

Inniloftið getur kallað á meiri kyrrsetu, skjánotkun og minni hreyfingu. Súrefnisleysi gerir okkur þreyttari, en þá er einmitt ástæða til þess að nýta ímyndunaraflið, finna leiðir til þess að hreyfa sig og fá ferskt loft. Hreyfing eykur gleðiboðefni í heila, kallar á hollari matarvenjur, gerir okkur þreyttari og auðveldar okkur þar af leiðandi að halda góðri rútínu. Svo ekki sé talað um að hreyfing getur drepið tímann. Í hinu daglega amstri kvarta margir undan tímaleysi í tengslum við hreyfingu, nú er aldeilis annað uppi á teningnum 😉Dæmi um hreyfingu í sóttkví:

  • Útihlaup á afskekktum svæðum.
  • Rösk ganga.
  •  Æfingar með eigin líkamsþyngd t.d. hnébeygjur, armbeygjur og magaæfingar.
  •  Sippubönd geta reynst vel til að hækka púlsinn.
  • Teygjur .
  •  Á Youtube eru til fjöldin allur af líkamsræktartímum sem fjölskyldan getur spreytt sig á saman.
  •  Crossfit Reykjavík býður upp á „heima-æfingar” en það má finna nýja æfingu á heimasíðu þeirra á hverju kvöldi eftir kl 21.00.
Fjölskyldan naut lífsins í austurrísku Ölpunum og en þurfti að fara í sóttkví eftir komuna aftur til Íslands.
Mynd úr einkasafni.

Þá  er Kristín líka með sérstök ráð þegar kemur að parasambandinu í sóttkví:

Það reynir verulega á pör og foreldra að fara saman í sóttkví, svo ekki sé talað um með börn 😉Gott er að hlúa vel að sambandinu, vanda sig í samskiptum og ræða um þá álagspunkta sem eru fyrirsjánlegir. Algengasti vandi para er misskilningur sem byggir á því að parið talar ekki nægilega mikið saman. Í sóttkví er aldeilis hægt að nýta tímann í spjall. Ég mæli með því við öll pör að halda vikulega stöðufundi, fara yfir vikuna sem leið og vikuna sem framundan er. Í sóttkví geta slíkir fundir reynst ennþá mikilvægari. Hugmyndir að því hvernig hlúa má að sambandinu í sóttkví:

  • Gefið hvort öðru einkatíma- þar sem annar aðilinn fær frið til þess að sinna sér.
  • Gefið ykkur paratíma- þar sem parið gerir eitthvað saman innan „sóttkvíar-marka“ t.d. spila, hlusta saman á hljóðbók, elda góðan mat.
  • Haldið reglulega stöðufundi.
  • Nýtið tímann í samtalið, kúr og knús

Hér má lesa greina í heild sinni: Að lifa af sóttkví: Sóttkvíarráð frá sóttkvíarþega

Kristín tekur á móti fólki i fjölskyldumeðferð hjá Sálfræðingum Höfðabakka þrjá daga vikunnar. Á vef stofunnar kemur fram hún tekur að sér parameðferð, skilnaðarstuðning og aðra fjölskyldumeðferð auk þess sem hún hefur sérþekkingu í fjölskyldumeðferð við vanda unglingsstelpna.

Þá hóf Kristín nýlega störf hjá DV þar sem hún svarar spurningum lesenda sem tengjast fjölskyldunni, börnum og ástinni.

Kristín Tómasdóttir
Mynd úr einkasafni