Matur

Fjöldi veitingastaða sem sendir heim

Tags:

-April 8, 2020

Sjötíu veitingastaðir komnir á lista hjá Facebookhópi

Facebookhópurinn „Matinn heim – staðir sem senda heim“ telur nú yfir þrjú þúsund meðlimi þrátt fyrir að hafa verið stofnaður fyrir aðeins tveimur vikum. Vegna COVID-19 hefur þeim fækkað til muna sem fara á veitingastaði að borða og var gripið til þess ráðs á fjölda veitingastaða að senda matinn heimt til fólks þrátt fyrir að hafa ekki gert það áður. 

Ingibjörg Stefánsdóttir, stofnandi Facebook-hópsins, segir það í raun hafa verið af tómri eigingirni sem hún kom hópnum á laggirnar. 

Mig langaði í góðan mat og var ekki í stuði til að elda. Hafði heyrt um indverskan stað sem sendi heim en mundi ekki hvað hann hét. Þá datt mér í hug að það gæti verið sniðugt að safna saman á einn stað upplýsingum um þá veitingastaði sem senda heim. Ég bjó því til hóp og bauð Facebook-vinum mínum. Þannig byrjaði boltinn að rúlla.

Þrátt fyrir að vera stofnandi hópsins hefur Ingibjörg ekki oft pantað mat heim að undanförnu. 

Hins vegar hef ég nú komist að því að hægt er að fá pizzu frá fleiri stöðum en Domino´s og hef nú tvisvar pantað pizzu frá Italiano pizzeria. Það er frábær staður og pizzurnar afbragðsgóðar. Svo sendi ég dóttur mína út í hríðina um daginn eftir mat frá Rakang, sem er með fínan taílenskan mat. Þau voru með tilboð fyrir þrjá, fimm eða sjö rétti saman ef sótt var, en Rakang sendir líka heim. Þriggja rétta tilboðið dugði okkur mæðgum í tvær máltíðir og vel það.

Þau Hilmar Hildar Magnússon og Edda Ýr Garðarsdóttir, tveir af meiðlimum hópsins, settu síðan upp Google Docs-skjal sem deilt er með hópnum þar sem er að finna upplýsingar um sjötíu staði (þegar þessar línur eru skrifaðar) sem bjóða upp á heimsendingu, innan hvaða póstnúmera er hægt að fá sent heim frá þeim stöðum, hvað þarf að panta fyrir háa upphæð til að fá heimsent og upplýsingar um sértilboð.

Ingibjörg tekur fram að hún hafi fengið góða hjálp við að setja þann lista saman, og sífellt bætist við. Hún nefnir að á sumum stöðum þurfi að panta með góðum fyrirvara, sérstaklega á þeim sem teljast til fínni staða, og því gott að huga tímanlega að kvöldmatnum.

Ingibjörg hefur starfað sem leiðsögumaður að undanförnu og hefur heimilisbókhaldið því ekki farið varhluta af fækkun ferðamanna. 

Mér finnst líka mikilvægt að við verslum við veitingastaðina sem eru að taka á sig stórt högg því nær allir ferðamenn eru farnir úr landi.