Skemmtun, Velferð

Fjarstýrð unaðstæki vinsæl í samkomubanni

Tags: , ,

-April 16, 2020

Auglýsa eftir kynlífstækjaprófara

„Ég veit ekki til þess að svona auglýsing hafi birst áður á Íslandi,” segir Saga Lluvia Sigurðardóttir, annar eigandi Losti.is sem er í senn vefverslun með unaðsvörur og erótískt veftímarit, en á dögunum auglýstu þær eftir „kynlífstækjaprófara.” Auglýsingin birtist á ráðningarvefnum Alfreð fyrir fjórum dögum og stendur hún nú í fjórða sæti yfir mest skoðuðu atvinnuauglýsingarnar frá því Alfreð fór í loftið árið 2013. Bara á fyrsta sólarhringnum komu inn yfir 500 umsóknir um starfiði. Nú hafa yfir 800 sent inn umsókn en auglýsingun á Alfreð.is hefur verið opnuð meira en sextán þúsund sinnum.

Gerðar eru þær kröfur til kynlífstækjaprófarans að viðkomandi sé lögráða, hafi áhuga á kynlífstækjum og viðhafi skipulögð og öguð vinnubrögð. Öll kyn eru hvött til að sækja um.

Skjáskot af Alfred.is
Athugið að þetta er ekki öll auglýsingin

Tveggja metra reglan: Ekkert mál!

Losti.is var stofnað á síðasta ári og er fyrirtækið rekið af tveimur ungum konum, Sögu og Evu Brá Önnudóttur.  Þær tóku fljótt eftir breytingu á eftirspurn þegar samkomubannið var sett á. „Fjarstýrð tæki eru orðin mjög vinsæl og við vorum einmitt að grínast með að það er vel hægt að fylgja tveggja metra reglunni þegar fólk er að nota fjarstýrð unaðstæki. Það sem hefur verið vinsælast síðustu vikur eru titrandi nærbuxur. Þá er lítið egg sett ofan í nærbuxurnar og annar aðili getur stjórnað kraftinu á titringnum. Þetta er mjög skemmtilegt og hefur selst tvisvar upp síðan samkomubannið hófst,” segir Saga.

Skjáskot af Losti.is. Hér má sjá hluta af úrvalinu þegar kemur að titrandi nærbuxum en nánari upplýsingar eru við hverja vöru.

En af hverju auglýstu þær eftir manneskju til að prófa kynlífstæki?

„Okkur langaði að fá inn hlutlausan aðila sem gæti prófað þau tæki sem við erum þegar með, hjálpað til við greinaskrif og tekið þátt í að móta vöruúrvalið. Þó við séum tvær þá er hollt að fá sjónarmið annarra en eigenda fyrirtækisins. Mismunandi tæki henta og henta ekki mismunandi fólki útaf fjölbreyttum ástæðum og við viljum geta komið þessum fjölbreyttu upplifunum til skila með því að deila frásögnum sem flestra. Við erum að leita að einhverjum sem er opinn, til í að prófa og segja frá reynslu sinni á hreinskilinn hátt,” segir Saga en viðkomandi starfsmaður getur verið nafnlaus ef hann kýs svo.

Skjáskot af tímaritahluta Losti.is

Fyrstar með vörur fyrir transfólk

Stofnun fyrirtækisins er raungering á draumi þessarra ungu kvenna um að fræða og upplýsa um hina ýmsu anga kynhegðunar manneskjunnar og hlúa að ýmsum hópum sem hafa oft verið útundan í umræðunni um kynlíf, svo sem vegna kynvitundar, fötlunar, aldurs eða blætis. 

„Okkur fannst vera gat á markaðnum sem við vildum fylla upp í. Losti.is er miklu meira en bara verslun. Við birtum líka fræðandi efni og erótískar sögur. Okkur langar að fara meira í þá átt. Við erum síðan fyrsta íslenska verslunin til að bjóða upp á vörur fyrir transfólk. Tæki hafa í raun ekkert kyn,” segir Saga en ólíkt öðrum verslunum í sama geira eru vörur ekki flokkaðar þannig að sumar séu fyrir konur og aðrar fyrir karla.” Þannig eru vörur fyrir transfólk í flokki sem kallast Kynvitund. „Okkur fannst ótrúlegt að svona sjálfsagðar vörur væru ekki aðgengilegar. Í flokknum Kynvitund er til dæmis að finna þrönga boli sem þrýsta niður brjóstunum og hentar þeim sem eru með brjóst en finnst það ekki samræmast upplifun sinni af eigin kyni. Þá erum við með vörur sem líta út eins og lítil typpi, ekki í reisn eða neitt slíkt, sem hægt er að setja innan í nærbuxur og þá kemur þessi bunga sem sést hjá fólki með typpi,” segir Saga. Þá selja þær einnig svokallað útvíkkunarsett sem bæði er hægt að nota þegar fólk er í kynleiðréttingarferli og nýkomið með leggöng en að sögn Sögu hentar þetta líka vel konum sem hafa lokið erfiðri lyfjameðferð vegna krabbameins. „Við slíkar lyfjameðferðir breytist margt í líkamanum og algengt að slímhúðin þorni upp og að konur þurfi að venjast því upp á nýtt að fá eitthvað upp í leggöngin.”

Saga Lluvia Sigurðardóttir, annar eigandi Losti.is

Ekki lengur háð Byko og Húsasmiðjunni

Saga leggur mikla áherslu á að það sé ekkert svart og hvítt þegar kemur að kynlífi og vill auka fræðslu þannig að allir upplifi að þeir eigi rétt á unaði. „Ýmis fjarstýrð tæki henta vel fólki með skerta hreyfigetu, til dæmis í höndum. Þá erum við með svokallaða ríðingarvél sem er mjög vinsæl hjá fólki sem glímir við  einhverskonar hreyfihömlun eða þarf að nota hjólastól. Hún er vinsæl hjá mörgum hópum fólks,” segir Saga. Hún bendir á að fólk sem stundar BDSM hefur oft upplifað sig útundan, og hreinlega verið kallað skrýtið. „Margir í BDSM-samfélaginu kannast við að þurfa að leita í Byko og Húsasmiðjunni því það vill fá vörur sem hafa ekki verið aðgengilegar. Við viljum að öll flóran fái að njóta sín og að allir geti það á eigin forsendum. Það er kjarni okkar stefnu,” segir hún. 

Þá nefnir Saga að þær hjá Losti.is hafi mikinn áhuga á að fá sendar erótískar sögur frá fólki sem vill deila upplifunum sínum af kynlífi og losta. „Það þarf enginn að koma fram undir nafni nema fólk vilji það. Við viljum birta sögur sem fólk getur lesið og hugsað með sér að það sé ekki skrýtið: „Það eru fleiri eins og ég.”