Pistlar

Verum góð hvert við annað

Tags: , ,

-April 7, 2020

Sólrún Ósk Lárusdóttir, sálfræðingur, skrifar:

Það getur tekið mikið á að vera fjarri ástvinum sínum í þessum undarlega nýja veruleika sem við stöddum öll frammi fyrir. Það getur líka tekið á að vera í miklu samneyti við þá. Frá Kína berast fréttir af fjölgun skilnaða sem talin er mega rekja til aukinnar samveru para. Það er margt sem eykur álag á sambönd og samskipti við þessar aðstæður, sérstaklega í samböndum sem í voru brestir fyrir. Það mæðir meira á samskiptunum og það er erfiðara að leiða hjá sér lesti makans þegar fólk er meira og minna saman allan sólarhringinn. Með aukinni samveru og þegar minna er fyrir stafni gefst tími fyrir ýmsar vangaveltur um sambandið sem hafa kannski kraumað undir yfirborðinu lengi. Spennustigið hækkar, þráðurinn verður styttri og við erum jafnvel farin að titra af pirringi yfir því hvað makinn andar hátt. 

Sem betur fer líkar mörgum hin aukna samvera vel og njóta þess að verja tímanum með fjölskyldunni en það er ekki sjálfgefið. Það hefur komist rót á jafnvægi og skipulag margra heimila undanfarnar vikur. Flest okkar vinna við aðrar aðstæður en áður, sum undir margföldu álagi í framlínunni, sum vinna heima á meðan önnur takast á við óvæntan atvinnumissi. Skipulag heimilsins getur umturnast, það bætast við verkefni eins og heimaskóli og meiri eldamennska og þá þarf að ganga til samninga að nýju um verkaskiptingu. Margir finna þessa dagana fyrir auknum ótta og áhyggjum og á sama tíma fækkar þeim bjargráðum sem við erum vön að nota til að hlaða batteríin, rækta okkur sjálf og sambandið.

 Við þetta bætist að við tökumst ef til vill allt öðruvísi á við erfiðleika en maki okkar. Það er eðlilegt að við bregðumst á ólíkan hátt við þessum óeðlilegu aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir. Sumir loka sig af og óska þess helst að leggjast í híði næstu vikurnar á meðan aðrir leita logandi ljósi að nýjum verkefnum og vilja hafa nóg fyrir stafni. Annar makinn lætur sig ef til vill dreyma um framkvæmdir á heimilinu sem hafa setið á hakanum á meðan hinn þráir að hámhorfa á Tígriskonunginn í kósýgallanum. Það getur hellst yfir lamandi þreyta og orkuleysi samfara nagandi samviskubiti yfir því að vera ekki að lesa nóg, föndra nóg, baka nóg, gera nógu margar heimaæfingar og vera með nógu marga bangsa í glugganum. 

Þrátt fyrir mikla samveru eru pör oft hreinlega ekki að tala nóg saman. Það getur verið gott að byrja á því að ræða um og samræma væntingar til komandi vikna. Góð samskipti einkennast meðal annars af góðri hlustun, að meðtaka hvað viðkomandi er að segja og láta í ljós skilning og samkennd. Það getur krafist æfingar að hlusta án þess að hrökkva í vörn eða vera með svör eða lausnir á reiðum höndum.  Stundum er gott að spyrja út í eða endurtaka það sem sagt var til að vera viss um að hafa skilið það rétt. Að sama skapi getum við þurft að þjálfa okkur í að skýra frá því hvernig okkur líður án þess að gagnrýna. Það er ágætis regla í öllum samskiptum að hafa hlutfall uppbyggilegra athugasemda talsvert hærra en neikvæðra.  

Flest höfum við þörf fyrir viðurkenningu, að finna að við skiptum máli og séum metin að verðleikum. Það er oft mikils virði að heyra að einhver taki eftir og kunni að meta litlu hlutina í hversdagsleikanum. Takk fyrir að fara út með ruslið. Takk fyrir að klippa táneglurnar á barninu okkar. Takk fyrir að setja ananas á pítsuna. Þakklæti og umhyggja hafa þá stórkostlegu eiginleika að vera góð fyrir geðheilsu bæði gefenda og þiggjenda. Munum að vera góð hvert við annað.