Börn

Söngstundir fyrir börnin slá í gegn

Tags: ,

-April 7, 2020

Aldís söng með krökkunum þegar hún vann á leikskóla

Aldís Davíðsdóttir ákvað að taka upp söngstund fyrir leikskólabörn og birta á YouTube svona ef það gæti stytt einhverjum stundir í samkomubanninu, börnum jafnt sem foreldrum. Hún sá fyrir sér að vinir hennar og kunningjar með ung börn gætu nýtt sér þetta til að drekka kaffisopa á meðan börnin fylgdust með söngstundinni. Nú, tveimur vikum síðar, hefur verið horft á fyrstu söngstundina yfir fimm þúsund sinnum. Vegna vinsældanna tók Aldís upp aðra söngstund, þá þriðju og loks þá fjórðu. 

Ég bjóst engan veginn við þessum vinsældum. Þetta varð bara eitthvað brjálæði. Það voru allir rosa ánægðir og ég hef fengið send mörg myndbönd af krökkum að syngja og gera hreyfingarnar sem við gerum með lögunum. Fyrst svona margir horfðu á fyrsta myndbandið þá bara varð ég að gera fleiri. 

Fjórða og nýjasta söngstundin með Aldísi

Aldís á þrjú börn og hafa þau öll birst í myndböndunum auk fjölskylduhundanna. Hún er menntuð leikkona, syngur með hljómsveitinni Sunnyside Road og hefur að undanförnu starfað við að gera brúður fyrir Þjóðleikhúsið og leikmuni fyrir Íslensku Óperuna. Þar áður starfaði hún með Leikhópnum Lottu, Götuleikhúsi Hins Hússins og á leikskóla þar sem hún var vön að syngja með krökkunum á morgnana.

Börn eru uppáhaldið mitt. Þau eru svo dásamleg. Ég man þegar ég var að vinna á leikskóla og þegar við sungum saman voru þarna kannski tuttugu eða þrjátíu krakkar sem sátu allir kyrrir og sungu. Ég ákvað að taka upp þessar söngstundir til að leggja mitt af mörkum til að fleiri gætu átt góðar stundir og sungið saman. Mér hefur líka fundist ótrúlega gaman að taka upp þessi myndbönd.

Aldís segist bara ætla að sjá til hvort hún taki upp fleiri söngstundir, eða bara eitthvað allt annað. Eitt er hún þó þegar búin að ákveða; að taka upp sérstaka Hundastund þar sem hún kennir börnum að umgangast hunda. 

Stundum koma krakkar hlaupandi og ætla að klappa ókunnugum hundum. Foreldrarnir hvetja þau jafnvel til þess. Það er hins vegar mjög mikilvægt að spyrja alltaf um leyfi og læra að nálgast hunda.

Lagið Haust með Sunnyside Road