„Við vorum búin að tala um það í nokkra daga að setja upp lítið og sætt kúlutjald í stofunni. Ég sá fyrir mér að þetta væri lítið tveggja manna tjald eins og allir áttu þegar ég var unglingur,” segir Salóme Rúnarsdóttir. „Ég vissi síðan ekki fyrr en hann var kominn með stærsta kúlutjald í heimi. Það er nánast stærra en stofan,” segir hún hlæjandi.
Síðustu vikur hafa verið annasamar hjá fjölskyldunni. Salóme, sem aldrei er kölluð annað en Sallý, býr ásamt eiginmanni og þremur börnum. Yngst er María Vésteinsdóttir sem er aðeins 15 mánaða en Sallý á líka tvíburastúlkurnar Emmu og Júlíu Hertervig sem svona venjulega eruu í 2. bekk í Melaskóla. Þær voru hins vegar í sóttkví í aðdraganda páskafrís og nýir siðir því teknir upp á heimilinu.
Ætla að sofa í tjaldinu
Sallý og maðurinn hennar, Vésteinn Ingibergsson, voru bæði að vinna heima en auk þess sinntu þau heimakennslu fyrir eldri stelpurnar og höfðu auðvitað nóg fyrir stafni með þá yngstu eðli málsins samkvæmt.
Þegar alltgott.is hafði samband við Sallý höfðu Júlía og Emma hjálpað við að setja upp risastjóra kúlutjaldið í stofunni og planið að sofa þar um nóttina. „Þeim finnst þetta ótrúlega spennandi og eru búnar að bíða spenntar eftir að sofa í tjaldinu. Ég er nokkuð viss um að þær fara fyrr að sofa heldur en venjulega,” segir Sallý.
Skrifuðu ömmu og afa bréf
Stelpurnar eru lika búnar að vera mjög áhugasamar um heimaskólann. „Það er allt búið að vera á milljón og ég hef verið með nokkra hatta; verið mamma, starfsmaður og kennari. Við byrjum alla morgna á því að skipuleggja daginn og búa til stundaskrá. Þetta hefur verið tækifæri til að nálgast námsefnið með óhefðbundnum hætti. Pabbi þeirra fann forrit á netinu þar sem þær gátu samtvinnaða forritun og stærðfræði. Í staðinn fyrir að æfa skrift með því að skrifa bara í stílabók þá skrifuðu þær bréf til ömmu og afa sem þær sendu síðan í póst. Í heimilisfræði voru þær síðan að baka. Þetta hefur bara verið skóli lífsins hér alla daga. Við höfum reynt að hugsa út fyrir kassann og gera dagana skemmtilega,” segir hún en tekur fram að þetta hafi krafist töluverðrar útsjónarsemi og vinnu. „Þetta er búið að vera erfitt og það eru mjög þreyttir foreldrar sem fara að sofa á kvöldin. Við höfum líka haft nóg að gera við að sinna þeirri yngstu. En þetta hefur líka gefið okkur mikið og við erum komin með mun betri innsýn í námið hjá stelpunum, og gaman að fylgjast með þegar þær eru að læra nýja hluti.”
Heilt yfir finnst Sallý eins og daglegt líf sé orðið einfaldara eftir því sem liðið hefur á COVID-19 faraldurinn. „Fólk leggur nú mikla áherslu á samveru og maður áttar sig á því að hún er ekki sjálfgefin. Það er gríðarlegt álag á fólk bæði frá samfélaginu sjálfu og frá vinnunni. Nú nær maður aðeins að njóta sín.”