Leikfélag Akureyrar fer nýstárlega leið að því að velja fjölskylduverk næsta leikárs því áhorfendur fá að velja verkið. Í dag hefst kosning á vefsíðu Menningarfélags Akureyrar, www.mak.is, þar sem áhugasamir geta valið á milli þriggja verka:
- Fíasól eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur
- Móglí í leikgerð Illuga Jökulssonar
- Benedikt Búálfur eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson.
Úrslit kosningarinnar verða kynnt seinna í mánuðnum og fá tveir heppnir þátttakendur fá fjóra miða hvor á verkið sem vinnur – það borgar sig því að taka þátt! Þetta kemur fram í tilkynningu frá Menningarfélagi Akureyrar.
Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, segir kosninguna spennandi tækifæri fyrir áhorfendur til að hafa meiri áhrif í leikhúsinu. „Mér finnst spennandi að sjá hvort beint lýðræði geti virkað í leikhúsi og hvort við getum þannig fært valdið meira til áhorfenda. Þetta er ein leið; að leyfa áhorfendum að velja á milli nokkurra leikverka í bindandi kosningu,“ segir Marta.
Það verk sem fær flest atkvæði verður sett upp í Samkomuhúsinu og frumsýnt í febrúar 2021 en leikstjóri verður Vala Fannell sem leikstýrði meðal annars Inn í skóginn og Konungur ljónanna með Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri, Litlu hryllingsbúðinni hjá Leikfélagi Húsavíkur, fml hjá LA og Brúðkaupi hjá Leikfélagi Eflingar. Vala er spennt að takast á við verkefnið. „Mér finnst æðislegt að gefa fólki kost á að kjósa um verk því það skapar fallegan samhug og við getum verið viss um að við setjum upp stórkostlega sýningu sem lyftir huga og hjörtum okkar allra eftir erfiðleikana sem að samfélagið okkar er að ganga í gegnum á líðandi stundu,“ segir Vala.