Viðburðurinn „Kófdrekktu betur“ hefur aldeilis slegið í gegn á tímum samkomubanns en um er að ræða rafrænt afbrigði af pöbbkvissinu „Drekktu betur“ sem fram hefur farið á öldurhúsum borgarinnar í gegn um árin, síðustu ár á Ölstofu Kormáks og Skjaldar við Vegamótastíg
Rétt eins og „Drekktu betur“ fer „Kófdrekktu betur“ fram á föstudögum klukkan 18:00 og fer fimmta keppnin fram í kvöld. Hildigunnur Rúnarsdóttir er spyrill kvöldsins og stjórnar hún leiknum í gegn um Facebook-streymi frá heimili sínu á Njálsgötunni í Reykjavík. Hefð er fyrir því að fá sér einn eða tvo bjóra á meðan keppnin stendur yfir og hefur Hildigunnur gefið út að hún ætli að kaupa sér Bríó fyrir kvöldið.
Hér er viðburðurinn á Facebook: Kófdrekktu betur #5
Streymið fer þó fram í hópnum Drekktu betur.
Við hvetjum fólk til að vera með í þessum stórskemmtilega spurningaleik. Þrjátíu spurningar eru í pottinum og eru rétt svör birt að keppni lokinni. Í þessari rafrænu útgáfu af keppninni er fólki treyst til að fara sjálft yfir svörin sín en á knæpum eru alltaf tveir í liði og skiptast lið á svarblöðum þegar farið er yfir rétt svör.